Skýrt skipulag um bílastæði
Stórt og rúmgott bílastæðahús verður neðanjarðar með beinni tengingu við alla íbúðahluta á Orkureitnum, þar sem þörf íbúa, gesta og fyrirtækjaeigenda fyrir geymslu bifreiða verður fullnægt. Keyrt er niður í bílastæðahúsið á tveimur stöðum en við rekstur þess mun gilda skýrt skipulag og markviss stýring aðgangs og umferðar með vönduðu aðgangsstýringarkerfi.
Áskrift og aðgangur
Bílakjallarinn er rekinn af rekstrarfélaginu Bílastæði ehf., dótturfélagi SAFÍR bygginga ehf. Félagið hefur sett skýrar reglur um útleigu stæða í kjallaranum. Stefnan er að útleiga bílastæða á lóðinni fullnægi þörfum íbúa og gesta þeirra fyrir geymslurými á bifreiðum auk þess sem atvinnuhúsnæði og mögulega aðrir geti einnig nýtt bílastæðakjallarann eftir því sem rými leyfir en þó ekki á kostnað íbúa.
Áskriftarréttindakerfi skiptist í nokkra flokka, eftir því hvort um íbúa, fyrirtæki eða almenna gesti er að ræða. Auk þess eru mismunandi áskriftarleiðir í boði. Nánari upplýsingar er að finna í reglum bílastæðahúss hér að neðan.
Séreign og samnýting
Í samræmi við deiliskipulag svæðisins er bílastæðahúsið í grunninn leigukjallari sem rekinn er á grundvelli samnýtingar. Íbúar á Orkureitnum hafa val um hvort þeir kjósa að leigja bílastæði eða ekki, gegn hóflegu gjaldi og með því er stuðlað að sanngjarnri útdeilingu bílastæða. Bílastæði í bílastæðakjallara verða um 350 talsins. Stór hluti bílastæða verður samnýtanlegur öllum á svæðinu en tæpur þriðjungur bílastæða verða sérmerktur. Til viðbótar verða um 40 bílskúrar í séreign. Íbúar á Orkureitnum hafa forgang að leigu bílastæða. Leigjendur atvinnuhúsnæðis geta að jafnaði ekki leigt bílastæði um nætur og helgar í langtímaleigu.